Feðgar og bræður tefla á Íslandsmótinu

Keppendalisti Íslandsmótsins í skák sem fram fer í Tónlistarskóla Seltjarnarness31. maí – 11. júní nk. liggur nú fyrir.

Keppendalistinn í ár er bæði sterkur og afar athyglisverður. Meðal keppenda eruHéðinn Steingrímsson og Hjörvar Steinn Grétarsson sem börðust hatramlega um sigurinn í fyrra. Þar hafði Héðinn betur. Jóhann Hjartarson tekur þátt rétt eins og fyrra en þá tók hann þátt í fyrsta skipti í 18 ár!

Á keppendalistanum eru fjórir stórmeistarar, fjórir alþjóðlegir meistarar, tveir FIDE-meistarar og feðgar! Auk feðganna Jóhanns Ingvasonar, sem fékk keppnisrétt eftir sigur í áskorendaflokki, ogArnar Leós Jóhannssonar, sem fékk keppnisrétt sem Unglingameistari Íslands, tefla bræðurnir Bragi og Björn Þorfinnssynir.

Fjórir keppendanna hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum.  Jóhann er fimmfaldur meistari (1980, 1984, 1994-95 og 1997) og Héðinn er þrefaldur meistari (1990, 2011 og 2015). Jón Viktor Gunnarsson hampaði Íslandsmeistaratitlinum árið 2000 og Guðmundur Kjartansson árið 2014.

Keppendalistinn

GM Hjörvar Steinn Grétarsson (2580)
GM Héðinn Steingrímsson (2574)
GM Jóhann Hjartarson (2547)
GM Stefán Kristjánsson (2464)
IM Guðmundur Kjartansson (2457)
IM Jón Viktor Gunnarsson (2454)
IM Bragi Þorfinnsson (2426)
IM Björn Þorfinnsson (2410)
FM Davíð Kjartansson (2370)
FM Guðmundur S. Gíslason (2280)
Örn Leó Jóhannsson (2226)
Jóhann Ingvason (2115)

Comments

comments